Slökun er líkamanum nauðsynleg en því miður gefa alltof fáir sér tíma til þess. Í hugum margra er slökun fólgin í því að horfa á sjónvarpið, vera í snjalltækjum, lesa, prjóna o.s.frv. Við þær aðstæður fær líkaminn mögulega hvíld en hugurinn ekki en það er jafn mikilvægt fyrir hugann að fá hvíld eins og líkamann.
Við slökun er algengt að fjöldi hugsana komi upp í kollinn en læra þarf að sleppa taki af þeim án þess að veita þeim eftirtekt eða athygli. Gott er að sjá fyrir sér hugsanir eins og myndir sem maður veitir ekki eftirtekt.
Í slökunarástandi fer af stað úrvinnsla á öllu því sem maður hefur upplifað þann daginn. Þegar slík úrvinnsla hefur farið fram á vökutíma aukast líkur á dýpri nætursvefni því minni tími fer í úrvinnsluna í draumsvefninum. Maður nær lengri djúpsvefni (sem er draumlaus svefn) þar sem líkaminn nær að endurnýja tapaða orku, sinna hefðbundnu viðhaldi og byggja sig upp.
Við hjá Hugarfrelsi mælum með að fólk gefi sér slökunarstund á hverjum degi og nýti sér slökun óspart þegar streita, ótti, kvíði eða annað tilfinningalegt ójafnvægi gerir vart við sig.
Hvenær er gott að nota slökun?
- Þegar þörf er á að auka kyrrð og ró
- Til að auka einbeitingu
- Fyrir atburði sem skapa eftirvæntingu og spennu svo sem próf, hátíðir, íþróttakeppnir, sýningar og tónleika
- Við andlegt álag (eins og einelti, skilnað, sorg, kvíða) og líkamlegt álag (til dæmis vegna æfinga eða veikinda)
- Fyrir svefn