Sjálfsmynd er sú sýn eða skoðun sem við höfum á okkur sjálfum, styrkleikum okkar og getu til að takast á við lífið og tilveruna. Sjálfsmyndin gegnir mikilvægu hlutverki því hún hefur áhrif á mjög margt meðal annars hugsun, hegðun, samskipti, árangur og hamingju. Sjálfsmynd er ekki meðfædd heldur mótast hún alla ævi út frá þeirri reynslu sem við öðlumst hvort sem hún er góð eða slæm. Erfðir, skapgerð og samskipti við aðra (fjölskyldu, vini, kunningja, kennara, þjálfara) geta einnig haft áhrif sem og menning samfélagsins.
Sjálfsmynd getur verið jákvæð eða neikvæð en það fer allt eftir því í hvaða aðstæðum við erum hverju sinni. Við getum því flakkað á milli jákvæðrar og neikvæðrar sjálfsmyndar oft á dag. Því oftar sem við erum í samskonar aðstæðum því öruggari verðum við. Það er hægt að þjálfa sjálfsmynd sína eins og um hvern annan vöðva líkamans væri að ræða.
Öll fæðumst við með ákveðna hæfileika og eftir því sem maður þroskast og eldist geta þessir hæfileikar þróast yfir í styrkleika ef ýtt er undir þá og þeir æfðir. Eitt mikilvægasta verkfærið til að ýta undir jákvæða sjálfsmynd er að efla styrkleika sína. Þess vegna leggjum við hjá Hugarfrelsi mikla áherslu á styrkleikaþjálfun á námskeiðum okkar.
Hvað er hægt að gera til að ýta undir jákvæða sjálfsmynd?
- Koma auga á styrkleika sína
- Þjálfa að minnsta kosti einn styrkleika á hverjum degi
- Vinna með tilfinningar sínar
- Hætta samanburði við aðra
- Setja sér raunhæf markmið