Góð öndun er grunnur að vellíðan. Við hjá Hugarfrelsi leggjum því mikla áherslu á að fólk kunni að nýta sér djúpa öndun til heilsubótar. Markvissar öndunaræfingar auka vellíðan og hugarró.
Mjög algengt er að fólk andi of grunnt en til að hægt sé að nýta sér ávinning öndunar sem best er nauðsynlegt að kunna að anda djúpt. Þegar við lærum að nota djúpa þindaröndun þá erum við ekki bara að kenna líkama okkar að slaka betur á, heldur líka að færa honum nægt súrefni og róa hugann.
Einn helsti kostur djúprar öndunar er að hana er hægt að nota án þess að nokkur taki eftir því. Aðalatriðið er fyrst og fremst að muna að nýta sér öndunina við ólíkar aðstæður. Aðstæður sem eru streituvaldandi, þegar maður er ekki í jafnvægi og finnur fyrir kvíða eða vill ná aukinni einbeitingu og hugarró.
Hvenær er gott að nota öndunaræfingar?
- Við tilfinningasveiflum svo sem kvíða, hræðslu og reiði
- Til að auka einbeitingu t.d. við lestur, heimanám og tómstundir
- Til að draga úr spennu
- Til að viðhalda ró, heilbrigði og jafnvægi
- Fyrir svefn