Hugarfrelsi logo

Námskeið

Vörur

Fyrirlestrar

Innleiðingar

Aðferðir

Veldu jákvæðni og gleði

Jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir eru þitt val. Þú velur á hverjum degi, hverjum klukkutíma, hverri mínútu hvernig þú hugsar um lífið og tilveruna. Þú ein/n getur haft áhrif á hvernig þú hugsar og hvaða orku þú kýst að setja í hugsanir þínar. Þú ert ekki hugsanir þínar, það ert þú sjálf/ur sem hugsar. Þú þarft því að vanda vel til verka þar sem allt sem þú hugsar um vex og þar af leiðandi mun það sem þú hugsar um móta líf þitt og tilveru. Þú hefur val um að fylla líf þitt af jákvæðni, gleði og hamingju eða neikvæðni, leiðindum og óhamingju. Hvort vilt þú velja?

Flestir eru ómeðvitaðir um að neikvæðar hugsanir lita líf þeirra. Flestir eru ansi duglegir við að rifja upp neikvæð atvik úr fortíðinni. Þeir finna endalaust eitthvað að sér og eru líka duglegir við að gagnrýna aðra. Almennur pirringur gerir vart við sig á hverjum degi og þar af leiðandi líður alltof mörgum illa stóran hluta úr deginum.

Það er hægt að breyta þessu hugsanamynstri. Það eina sem þarf til er að ákveða hvaða hugsanir þú ætlar að hugsa um þegar þú verður var/vör við neikvæðar hugsanir. Hugurinn er því miður þannig gerður að hann leitar alltaf í það neikvæða þar til þú hefur lært að hugsa jákvætt. Það er ekki alltaf auðvelt að kjósa jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir fram yfir neikvæðar og niðurdrepandi hugsanir en þú getur vel æft þig í þessu eins og öllu öðru.

Taktu þér tíma í dag og næstu daga til að vega og meta hugsanir þínar. Þú skalt reyna að horfa á hugsanir þínar úr fjarlægð. Skoðaðu hvernig hugsanir koma oftast upp í kollinn á þér. Þú skalt líka veita athygli hvernig þú hugsar til annarra. Orka hugsanna er meiri en okkur grunar og þó svo að viðkomandi geti ekki heyrt hvað þú ert að hugsa, er næsta víst að hann skynjar hugsanir þínar og verður fyrir áhrifum frá þeim.

Ef þú verður vör/var við neikvæðar og niðurdragandi hugsanir sem dvelja lengur í huga þínum en eina mínútu í senn þarftu að temja þér léttara hugarfar. Neikvæðar hugsanir skaðar andlega og líkamlega heilsu okkar. Neikvætt tal er smitandi og mætti líkja neikvæðu tali og neikvæðum hugsunum við mengun. Þær hægja á afköstum okkar og spilla fyrir manni lífgleðinni.

Ef þú ert ekki með jákvæðar hugsanir á reiðum höndum er gott gera lista yfir jákvæðar og uppbyggilegar hugsanir um þig sjálfa/n, aðra í kringum þig og umhverfi þitt. Þegar þú tekur eftir neikvæðum hugsunum velurðu uppbyggilega og jákvæða hugsun af listanum þínum sem þú getur sett inn í staðin fyrir þá neikvæðu.

Það besta sem þú getur gert fyrir heiminn, er að gera það besta úr sjálfri/um þér. Byrjaðu því strax í dag að skoða hugsanir þínar og beindu þeim í jákvæðan, uppbyggilegan farveg og vittu til, líf þitt mun taka stakkaskiptum.