Allir litir hafa merkingu og það er gaman að velta fyrir sér af hverju við sækjum í ákveðna liti á meðan aðrir litir höfða ekki til okkar. Flestir eru ómeðvitaðir um litaval sitt á fötum og skrautmunum og velta lítið fyrir sér að litir hafa áhrif á andlega líðan.
Hægt er að nota liti á ólíkan máta svo sem til að skapa ró, veita vellíðan, auka á kærleika, vinnufrið og sköpunarkraft. Hver og einn ætti að nýta sér litina óspart til að hafa áhrif á líðan, klæðast fötum í lit, velja litríka skrautmuni inn á heimilið og borða litríkan mat.
Rauður: Táknar kærleikann, eflir ást og ýtir undir sterkar tilfinningar s.s. ástríðu og spennu. Gefur lífskraft, hugrekki og eykur jarðtengingu. Skærrauður litur táknar óhefta reiði.
Appelsínugulur: Eflir áhuga, langanir og sköpun, ýtir undir lífsgleði og táknar kvenorkuna.
Gulur: Stendur fyrir visku, vitsmuni, von, vöxt og þroska. Táknar kraftinn sem býr innra með okkur.
Grænn: Er litur náttúrunnar. Veitir heilun, er nærandi og eykur jafnvægi. Grænn táknar vöxt, öryggi, ferskleika og sátt.
Bleikur: Táknar umhyggju. Eflir hamingju og ýtir undir kærleiksrík sambönd.
Blár: Táknar tjáningu, næmni, traust, dýpt, fagmennsku og kennslu.
Turkis: Stendur fyrir hugsjón og heildarsýn.
Fjólublár: Táknar andleg heilun, hreinsun, mátt, innsæi og gáfur.
Hvítur: Táknar nýtt upphaf, sannleikann, heiðarleika, sakleysi, hreinleika, ljósið og tengist almættinu.
Grár: Táknar styrk, stöðugleika og hefur ekki mikil áhrif á tilfinningar.
Brúnn: Táknar jarðtengingu, afslöppun, stöðugleika og vernd.
Svartur: Táknar glæsileika, fágun, styrk, leyndina, það óþekkta, og sorgina.