Jóladagatal Hugarfrelsis
Jólin eru hátíð samveru og samkenndar. Við skelltum í smá dagatal sem hægt er að skoða með fjölskyldunni og vonum að þið njótið saman. Dagatalið lumar á einu verkefni á dag frá þeim tíma sem jólasveinarnir koma til byggða
Dagar í desember:
12
13
14
15
16
17
18
19
20
21
22
23
24
12. des
Gleðilisti fjölskyldunnar
Spyrjið ykkur eftirfarinna spurninga:
Hvað finnst ykkur gaman að gera saman?
Hvað fær ykkur til að brosa út að eyrum og finna gleðina innra með ykkur?
Út frá hugmyndum ykkar getið þið búið til Gleðilista fjölskyldunnar.
Þetta geta verið einföld atriði eins og til dæmis:
• Útivera (hjóla, hlaupa, ganga, fjallganga, fjöruferð, útileikir)
• Fara í bíltúr
• Stunda íþrótt
• Spjalla við vini og ættingja
• Eiga notalega stund með fjölskyldunni
• Teikna eða föndra
• Spila borðspil
• Búa til leikrit, segja brandara eða gátur
• Fara í ratleik, feluleik eða eltingaleik
• Taka myndir eða búa til myndbönd
• Setja upp stöðvar á heimilinu t.d. nuddstofu, snyrtistofu og kaffihús
• Hlusta á góða tónlist, jafnvel dansa og syngja með
• Rifja upp góðar minningar t.d. með því að skoða myndir og myndbönd
• Horfa á þátt eða mynd
• Elda eða baka
• Lesa góða bók
• Slaka á og hlusta á hugleiðslusögu saman
Gleðilista fjölskyldunnar er mikilvægt að nota reglulega og því er best að hafa hann á áberandi stað. Þetta er einföld leið til að skapa skemmtilegar samverustundir og góðar minningar.
13. des
Slökun og hugleiðsla
Hægt er að velja um styttri hugleiðslusögurnar sem merktar eru börnum eða lengri sögurnar sem merktar eru fullorðnum.
14. des
Spegillinn
Spegillinn
Skemmtilegur leikur fyrir tvo. Sitjið eða standið á móti hvort öðru. Hreyfðu þig á ýmsan máta, upp og niður, fram og til baka, sýndu svipbrigði o.fl. Barnið er spegill þinn og speglar hreyfingarnar samtímis. Minntu barnið á að gera ekki nein hljóð á meðan. Síðan skiptið þið um hlutverk. Leikurinn reynir á ýmislegt hjá barninu meðal annars hugmyndaflug og hugrekki. Þennan leik er líka gaman að gera með vinum sínum.
15. des
Þakklæti
Þakklætiskrukka er tilvalin jólagjöf frá barninu til þeirra sem því þykir vænt um svo sem fjölskyldumeðlima og vina.
Finndu stóra glerkrukku og merktu hana Þakklætiskrukka.
Hvettu barnið til að skrifa á litla miða allt sem það er þakklátt fyrir í fari viðkomandi. Hægt er að klippa út lítil hjörtu.
Þetta gæti verið:
• Takk fyrir að vera góð/ur við mig.
• Takk fyrir að spila við mig.
• Takk fyrir að leika við mig.
Þetta get líka verið jákvæðir eiginleikar eins og:
• Þú ert svo blíð/ur og góð/ur.
• Skemmtileg/ur
• Fyndin/n
16. des
Aðventuganga
Notalegt er að fara saman í gönguferð á aðventunni og nýta umhverfið til að efla skynjun barnsins og núvitund. Í gönguferðinni er gott að veita athygli öllu því sem fyrir augu ber og gefa sér svo stund til að setjast niður og staldra við. Dragið andann djúpt og hlustið á umhverfið.
Spurðu barnið eftirfarandi spurninga:
Hvaða hljóð heyrirðu?
Tekurðu eftir einhverjum hljóðum innra með þér?
Heyrirðu hjartslátt þinn?
Eru kannski skruðningur frá maganum sem þú heyrir í?
Hvað sérðu í kringum þig?
Biddu barnið að anda djúpt að inn í gegnum nefið og segja hverju það finnur lykt af í umhverfi sínu.
Spurðu barnið hvort því finnist erfitt eða auðvelt að vera kyrrt.
Hvettu barnið til að snerta umhverfi sitt og finna mismunandi áferð á því sem er í kringum það eins og greinum á trjám, jarðvegi, steinum, snjó og fleiru.
Síðan er hægt að halda gönguferðinni áfram og reyna eftir fremsta megni að vera í núvitund.
17. des
Glimmer-ró
Mörg tengjum við snjókúlur við jólin. Glimmerkrukka er nokkuð lík snjókúlu. Hún er ekki bara dásamlega falleg heldur hefur hún líka róandi áhrif. Föndraðu glimmerkrukku með barninu þínu. Glimmerkrukkan er tilvalin fyrir barnið þegar það þarf að róa hugann eða langar til efla fegurðarskyn sitt. Ef barnið þitt hefur nú þegar föndrað glimmerkrukku getur verið gaman að búa til fleiri til að gefa í gjafir.
Efni:
Lítil glerkrukka með loki eða plastflaska með tappa
Vatn
Fíngert glimmer
Glær uppþvottalögur
Aðferð:
Fylltu krukkuna eða plastflöskuna nánast af vatni.
Settu um matskeið af glimmeri út í.
Bættu slatta af glærum uppþvottalegi saman við.
Hristu síðan krukkuna/flöskuna þannig að allt blandist vel saman.
Notkun:
Hristu glimmerkrukkuna og fylgist með hvernig glimmerið fellur hægt til botns. Glimmerið í krukkunni er eins og hugur okkar eða hugsanir sem þeysast um eins og hvirfilbylur. Með því að staldra við og anda djúpt kemst smám saman ró á hugsanirnar, alveg eins og glimmerið sem fellur rólega til botns. Áhugavert er að skoða glimmerið á botninum og taka eftir litum þess. Þessu er líkt farið með huga okkar, þegar við róumst getum við betur áttað okkur á hvaða hugsanir skipta okkur mestu máli, hvar áhugi okkar liggur og hvernig okkur líður.
18. des
Óskaöndun
Með óskaöndun lærir barnið að senda sjálfu sér og öðrum góðar óskir.
Segðu eftirfarandi við barnið:
Hugsaðu til einhvers sem þú vilt senda ósk til.
Hugsaðu hver óskin er.
Andaðu að þér inn um nefið og hugsaðu um óskina sem þú ætlar að senda til xxx (nafn viðkomandi).
Andaðu frá út um munninn um leið og þú sendir viðkomandi óskina.
Hægt er að senda ósk til:
- Sjálfra sín
- Foreldra
- Systkina
- Vina
- Nágranna
- Allra í heiminum
19. des
Slökun og hugleiðsla
Hlustið saman á hugleiðslusögu á hlaðvarpi Hugarfrelsis.
Hægt er að velja um að velja styttri hugleiðslusögurnar sem merktar eru börnum eða lengri sögurnar sem merktar eru fullorðnum.
20. des
Styrkleikastjarna
Í dag er upplagt að minna barnið á styrkleika sína með því að gera styrkleikastjörnu.
Klipptu út úr þykku blaði fimmarma stjörnu. Inn í miðju stjörnunnar límir barnið mynd af sér eða skrifar nafnið sitt.
Barnið fær blað sem skipt er í þrjá dálka. Í fyrsta dálkinn skrifar það sína styrkleika, í dálk tvö skrifa systkini styrkleika barnsins og í þriðja dálkinn skrifar foreldri styrkleika barnsins. Barnið velur síðan þá styrkleika sem það vill setja inn á arma stjörnunnar sinnar.
Ef barnið á erfitt með að finna styrkleika sína getur verið gott að spyrja það eftirfarandi spurninga: Hvað finnst þér gaman að gera? Hvar gleymirðu þér? Í hverju ertu góð/ur?
Stjörnuna getur barnið fest upp á vegg, inn í skáp eða hengt í gluggann til að minna sig á styrkleika sína alla daga.
21. des
Stjörnuganga
Þegar orðið er dimmt er spennandi að fara út í göngutúr til að skoða stjörnurnar. Best er að sjá stjörnurnar þegar það er heiðskýrt og engin ljósmengun sem truflar. Gaman er að taka vasaljós með í gönguna til að lýsa leiðina en slökkva síðan á ljósunum og virða stjörnubjartan himininn fyrir ykkur. Fegurð og ljós stjarnanna er engu líkt, minntu barnið á að leyfa sér að skína skært eins og falleg stjarna alla daga.
22. des
Gleðihringur
• Hvað gerðir þú vel?
• Hvað var skemmtilegt í dag?
• Gerðist eitthvað fyndið?
• Hvað gerði þig glaða/nn?
23. des
Hjálpsemi
Gefðu þér stund til að spjalla við barnið þitt um mikilvægi hjálpsemi. Prófið að loka augunum og hugsa til dagsins í dag eða gærdagsins. Hvaða góðverk gerðum við, sáum aðra gera eða hvað var gert fyrir okkur?
Í dag skaltu hvetja barnið þitt til að hjálpa til heima eða hjá ömmu og afa.
Til dæmis að fara út með ruslið, viðra hundinn, taka til í herberginu sínu, ganga frá eftir matinn, pakka inn gjöfum, aðstoða aðra í fjölskyldunni…
24. des
Töfraljós
Á aðfangadag þegar spennan er oft mikil getur verið notalegt að fá sér heitt kakó og æfa sig um leið í djúpri öndun:
- Andaðu að inn um nef um leið og þú lyktar af heita kakóinu.
- Andaðu frá út um munn um leið og þú blæst á kakóið til að kæla það.
- Öndunin hjálpar okkur að vera í núvitund og njóta.
Hvettu barnið þitt til að nota fallega töfraljósið sem býr innra með því og nota hrós og falleg orð til að lýsa upp jólahátíðina. Með hrósi og fallegum orðum getum við framkallað töfra. Við köllum fram það besta í öðrum með setningum eins og:
Mikið er ég fín/n.
Þú lítur vel út.
Þú eldar svo góðan mat.
Vá hvað þetta er flott hjá þér.
Takk fyrir matinn.
Þetta var skemmtileg mynd.
Takk fyrir gjafirnar.
Þetta var góður dagur.