Hugarfrelsi logo

Námskeið

Vörur

Fyrirlestrar

skólar

Aðferðir

Jóladagatal Hugarfrelsis

Jólin eru hátíð samveru og samkenndar. Við skelltum í smá dagatal sem hægt er að skoða með fjölskyldunni og vonum að þið njótið saman. Dagatalið lumar á einu verkefni á dag frá þeim tíma sem jólasveinarnir koma til byggða

Dagar í desember:

12

13

14

15

16

17

18

19

20

21

22

23

24

12. des

Jólagjöf sem gleður 

Sniðug hugmynd að jólagjöf er að gera gjafabréf þar sem áherslan er á að gleðja aðra án mikils kostnaðar. Hægt er að skrifa á hvern miða t.d.

Eigandi þessa gjafabréfs fær:

  • Morgunmat í rúmið
  • Þriggja rétta kvöldverð í umsjón barnanna
  • Stofutónleika
  • Upplestur úr bók 
  • Að sleppa við uppvask í viku
  • Nudd (höfuðnudd, tásunudd, herðanudd)
  • Tiltekt og þrif 
  • Dekurstund að eigin vali
  • Slökun og hugleiðslustund

13. des

Það eru engin jól án…

Það getur verið skemmtilegt að ræða saman um hvað það er sem okkur finnst einkenna jólin. Stundum koma fram ólík sjónarmið en þó ekki alltaf. Hér eru nokkrar spurningar sem gaman er að velta fyrir sér og spyrja aðra að:

Hvað kemur þér í jólaskap?

Hvað finnst þér best um jólin?

Það eru engin jól án….?

Hvað finnst þér einkenna jólin?

Er einhver jólahefð í þinni fjölskyldu?

Hvað ætlar þú gera til að gleðja aðra um jólin?

 

14. des

Glimmer-ró

Mörg tengjum við glitrandi snjókúlur við jólin. Glimmerkrukka er nokkuð lík snjókúlu. Hún er ekki bara dásamlega falleg heldur hefur hún líka róandi áhrif. Það er kjörið að föndra glimmerkrukku með barninu þínu. Glimmerkrukkan er tilvalin fyrir barnið þegar það þarf að róa hugann eða langar efla fegurðarskyn sitt

Efni:
Lítil glerkrukka með loki eða plastflaska með tappa
Vatn
Fíngert glimmer
Glær uppþvottalögur

Aðferð:
Fylltu krukkuna eða plastflöskuna nánast af vatni.
Settu um matskeið af glimmeri út í.
Bættu slatta af glærum uppþvottalegi saman við.
Hristu síðan krukkuna/flöskuna þannig að allt blandist vel saman.

Notkun:
Hristu glimmerkrukkuna og fylgist með hvernig glimmerið fellur hægt til botns. Glimmerið í krukkunni er eins og hugur okkar eða hugsanir sem þeysast um eins og hvirfilbylur. Með því að staldra við og anda djúpt kemst smám saman ró á hugsanirnar, alveg eins og glimmerið sem fellur rólega til botns. Áhugavert er að skoða glimmerið á botninum og taka eftir litum þess. Þessu er líkt farið með huga okkar, þegar við róumst getum við betur áttað okkur á hvaða hugsanir skipta okkur mestu máli, hvar áhugi okkar liggur og hvernig okkur líður.

 

15. des

Hjálpsemi

Í dag skaltu hvetja barnið þitt til að hjálpa til heima eða hjá ömmu og afa.

Til dæmis að:

…fara út með ruslið

…viðra hundinn

…taka til í herberginu sínu

…ganga frá eftir matinn

…pakka inn gjöfum

…aðstoða aðra í fjölskyldunni

Gefðu þér stund til að spjalla við barnið þitt um mikilvægi hjálpsemi. Gott er að velta fyrir sér hvernig við getum haft jákvæð áhrif á aðra til dæmis með góðverkum og hjálpsemi. Hvað getum við gert til að hjálpa öðrum? Kannski nægir lítið bros til að gleðja aðra. Að gefa af sér og vera hjálpsamur eykur vellíðan. 

 

16. des

Tilhlökkun 

 

Desembermánuði geta fylgt margs konar tilfinningar bæði hjá börnum og fullorðnum. Tilfinningar eins og spenna, tilhlökkun, gleði og eftirvænting. Væntingar barna geta orðið óraunhæfar og samanburður mikill. Þá er gott að ræða tilfinningarnar sem upp koma og velta fyrir sér hvort það sé einhver tilfinning sem kemur oftar upp en önnur og hvers vegna. 

Spurðu barnið:

Hvernig lýsir tilfinningin sér?

Hvar í líkamanum finnurðu fyrir tilfinningunni?

Hvernig finnst þér best að bregðast við tilfinningunni?

Gott er að minna barnið á að nota djúpa öndun þegar tilfinningar verða yfirþyrmandi til að auka jafnvægi og ró. 

Fyrir háttinn er tilvalið að hlusta saman á hugleiðslusögu Hugarfrelsis, Fallega stjarnan, á Spotify eða hlaðvarpsveitum.

 

17. des

Þakklæti

Þakklæti er mikilvægt í samskiptum en allt sem þarf er að muna eftir að þakka fyrir. Þakkarefnin eru allt í kringum okkur. Þakklætiskrukka er tilvalin jólagjöf frá barninu til þeirra sem því þykir vænt um svo sem fjölskyldumeðlima og vina.

Finndu stóra glerkrukku og merktu hana Þakklætiskrukka.
Hvettu barnið til að skrifa á miða eða hjörtu allt sem það er þakklátt fyrir í fari  þess sem mun fá krukkuna. 

Þetta gæti verið:
• Takk fyrir að vera góð/ur við mig.
• Takk fyrir að spila við mig.
• Takk fyrir að leika við mig.

Þetta get líka verið jákvæðir eiginleikar eins og:
• Þú ert svo blíð/ur og góð/ur.
• Skemmtileg/ur.
• Fyndin/n.

 

18. des

Óskaöndun

 

Mikilvægt er að gefa sér reglulega stund til að hugsa hlýtt til sjálfs síns, fjölskyldumeðlima, vina og annarra.  Óskaöndun er dásamleg leið til að kenna barni öndunaræfingu og aukna samkennd.

Með óskaöndun sendir þú góða ósk til þín og annarra.

Segðu eftirfarandi við barnið:
Hverjum vilt þú senda ósk og hver er óskin?
Settu hendur á hjartastað og lokaðu augunum. 
Hugsaðu til þess sem þú vilt senda góða ósk og andaðu djúpt.
Um leið og þú andar að inn um nefið segirðu óskina í huga þér.
Andaðu frá út um munn um leið og þú sendir viðkomandi óskina
Sjáðu fyrir þér hvernig óskin fari huglægt til viðkomandi. 

Dæmi um óskir:
,,Ég óska þess að mér/þér líði vel.“
,,Ég óska þess að ég/þú eigir gleðileg jól.“
,,Ég óska þess að ég/þú finnir fyrir þakklæti um hátíðina.“

Sendu ósk til:

  • Þín
  • Foreldra
  • Systkina
  • Bekkjarfélaga
  • Vina
  • Nágranna
  • Allra í heiminum

19. des

Jólin hér, jólin þar

Á aðventunni getur verið áhugavert  að skoða hvort allir halda upp á jól og með hvaða hætti. Hefðirnar eru án efa margar og mismunandi um allan heim. Hægt er að styðjast við snjalltæki og veraldarvefinn. Gaman er að skoða hverja heimsálfu fyrir sig eða nokkur lönd innan hverrar heimsálfu.

Hverjir halda jól?

Eru haldin jól í öllum löndum heims? 

Hvernær eru jólin haldin hjá öðrum?

Hvernig eru jól öðruvísi í öðrum heimshlutum og af hverju?

    20. des

    Kósý jólastund

    Það er fátt notalegra á aðventunni en að hjúfra sig upp í sófa og horfa saman á uppáhalds jólamyndina. Eftir myndina er hægt að spjalla um innihald hennar og hvers vegna hún er í uppáhaldi. 

    Fyrir háttinn er tilvalið að hlusta saman á hugleiðslusögu Hugarfrelsis á Spotify eða hlaðvarpsveitum. Hægt er að velja um að velja styttri hugleiðslusögurnar sem merktar eru börnum eða lengri sögurnar sem merktar eru fullorðnum.

    21. des

    Stjörnuganga

    Það er spennandi að fara út í myrkri í göngutúr til að skoða stjörnurnar. Best er að sjá stjörnurnar þegar það er heiðskírt og engin ljósmengun truflar. Gaman er að taka vasaljós með í gönguna til að lýsa leiðina en slökkva síðan á ljósunum og virða stjörnubjartan himininn fyrir sér. Minntu barnið á að leyfa sér að skína skært eins og falleg stjarna alla daga.

    22. des

    Smákökuöndun

    Í dag skaltu njóta þess að borða nýbakaða smákökur með barninu þínu. Upplagt er að æfa djúpa öndun í leiðinni. 

    Andaðu djúpt inn um nefið og finndu góðu lyktina af smákökunni.

    Andaðu frá út um stút á vörum til að kæla smákökuna.

    Fáðu þér bita og njóttu.

     

    23. des

    Gleðihringur

    Til að ýta undir jákvæða hugsun og vellíðan er upplagt að nota tímann þegar þið borðið saman kvöldmatinn og biðja fjölskyldumeðlimi að rifja upp:

    • Hvað gerðir þú vel?
    • Hvað var skemmtilegt í dag?
    • Gerðist eitthvað fyndið?
    • Hvað gladdi þig í dag?

     

    24. des

    Töfraljós

    Hvettu barnið til að nota fallega töfraljósið sem býr innra með því og nota hrós og falleg orð til að lýsa upp jólahátíðina. Með hrósi og fallegum orðum getum við framkallað töfra. Við köllum fram það besta í öðrum með setningum eins og:

    Mikið ertu fín/n.
    Þú ert frábær.
    Ég er svo þakklát fyrir þig.
    Þú eldar svo góðan mat.
    Vá hvað þetta er flott hjá þér
    Takk fyrir matinn.
    Þetta var skemmtileg mynd.
    Takk fyrir gjafirnar.
    Þetta var góður dagur.

    Gleðileg jól!!!