Hugarfrelsi logo

Námskeið

Vörur

Fyrirlestrar

Innleiðingar

Aðferðir

Hið dýrmæta augnablik

Í desembermánuði fyrir tveimur árum var ég stödd á jólabasar. Þangað var ég komin til að horfa á dóttur mína, þá fjögurra ára, syngja jólalög í fyrsta sinn opinberlega. Börnin komu gangandi inn í salinn, prúðbúin, og horfðu stóreygð á skælbrosandi foreldra sína bíða í eftirvæntingu eftir að sjá þau láta ljós sitt skína.

Á meðan hópurinn kom sér fyrir á sviðinu flýtti ég mér að troða mér fremst til að sjá betur. Ég settist á hækjur mér tilbúin að hlusta og loks voru allir komnir á sinn stað. Eftir augnabliks þögn gaf leikskólakennarinn merki og börnin byrjuðu að syngja. Hjartað mitt fylltist stolti yfir stúlkunni minn sem söng svo vel og ljómaði af gleði. Mér fannst hún hreinlega efni í stórsöngkonu.

Fyrstu, og algjörlega ómeðvituðu, viðbrögð mín á þessu andartaki, var að stinga hendinni í jakkavasann og sækja símann minn. Þetta atriði varð ég að festa á filmu. Ég sá strax að sjónarhornið mitt var alls ekki nógu gott og reyndi að færa mig laumulega til hliðar en rakst utan í mann sem stóð við hliðina á mér. Ég leit samstundis upp til að biðja hann afsökunnar en sá þá að hann hafði ekki einu sinni tekið eftir mér. Hann var of upptekinn við að taka myndir á símann sinn. Eins og ALLIR hinir foreldrarnir sem höfðu myndað eins konar virkisvegg fyrir framan sönghópinn með símana á lofti. Tónleikarnir höfðu breyst í eina alsherjar myndatöku.

Ég varð hálf miður mín við þessa sýn og var fljót að stinga símanum aftur í vasann. Mér fannst eins og við foreldrarnir værum að reyna að taka þetta fallega augnablik til fanga í stað þess að njóta þess. Ég settist aftur niður og sá dóttur mína veifa glaðlega til mín. Ég naut þess virkilega að horfa á restina af tónleikunum. Ég átti ekki mynd af henni syngja en ég átti góða minningu.

Þessi óteljandi augnablik sem við fáum í lífinu eru svo ósýnileg og hverfa jafnóðum og þau koma. Þess vegna er svo auðvelt að gleyma því að njóta þeirra, enda er hugurinn stunginn af við fyrsta tækifæri. Með sítengdann símann í lófanum eru bara svo ótalmargar leiðir í boði til að dreifa huganum. Oftast erum við upptekin við að skipuleggja, endurlifa eða sýna öðrum veruleikann okkar í stað þess bara að vera þar.

Kannski er það eitt göfugasta verkefnið okkar að læra að njóta líðandi stundar, þó ekki sé nema nokkrar sekúntur í senn. Í „núinu“ er nefnilega eini staðurinn þar sem hugurinn er sáttur og kyrrlátur – og kærleiksríkur. Á þessum tíma árs þegar jólin eru fram undan og allur sá undirbúningur sem þeim fylgir er þetta einmitt besti tími ársins til að æfa sig í að njóta líðandi stundar; Sleppa um stund takinu á löngum verkefnalistum og tímaþröng. Geyma símann í vasanum.

Það var þetta sem ég rifjaði upp einu sinni enn, einmitt þegar ég var stödd á jóladanssýningu dóttur minnar fyrir stuttu. Ég slökkti á símanum, hallaði mér aftur í sætinu, dró djúpt andann og naut þess þegar stoltið bar mig ofurliði og augun fylltust skyndilega af „kuski“. Það eru einmitt svona augnablik sem sitja skýrar í huga og hjarta manns en nokkur ljósmynd.

Eva Rún Þorgeirsdóttir, pistlahöfundur.