Hugarfrelsi logo

Námskeið

Vörur

Fyrirlestrar

Innleiðingar

Aðferðir

Hamingja er val!

Hamingjan er val, þú getur valið hamingju burt séð frá því hvað er að gerast hjá þér í lífinu hverju sinni. Hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusama/n. Hamingja er lífsstíll sem maður velur sér með því að horfa öðruvísi á hið daglega líf.

Hamingja er hugarástand. Þrátt fyrir að þú sért t.d. í draumastarfinu, í góðri stöðu í samfélaginu eða eigir næga peninga þá er ekki þar með sagt að þú upplifir að þú sért hamingjusöm/samur nema að þú veljir að vera hamingjusamur/söm. Þú getur sem sagt kosið að lifa lífinu í hamingju. Hamingjusamasta fólkið á ekki endilega alltaf mest af öllu heldur er sátt við það sem það á.

Sagt er að hamingjan felist í því að fá það sem maður vill og vilja það sem maður fær. Í þessu samhengi er gott að minna sig reglulega á að vera þakklátur fyrir það sem lífið færir manni, hvort sem það eru erfiðleikar eða velgengni. Við þroskumst á hvoru tveggja. Sumir segja að það fólk sé hamingjusamt sem hefur eitthvað að hlakka til. Vissulega er nokkuð til í því en við megum samt ekki gleyma í tilhlökkuninni að njóta líðandi stundar. Hamingjan felst nefnilega í því augnabliki þegar þú gleymir þér við að gera eitthvað sem á hug þinn allan. Þú tekur reyndar ekki eftir þessu ástandi fyrr en eftir á en þegar þú uppgötvar það þá brosirðu breytt því þú hefur náð að lifa í núinu og uppfyllt hjarta þitt af gleði og hamingju.

Oftar en ekki upplifir fólk þetta hamingjuástand þegar það nýtur ásta, hlustar á tónlist eða leikur á hljóðfæri, er úti í náttúrunni, sinnir áhugamálum, gleymir sér við bókalestur, matargerð eða íþróttaiðkun. Staður og stund gleymist. Sannkölluð sælustund sem þú ættir að reyna að upplifa sem oftast í lífinu. Veldu því að gera það sem gleður þig mest. Veldu að vera í því hugarástandi að gleðjast og vera hamingjusamur/söm þrátt fyrir myrkrið í kring. Komdu alltaf auga á það jákvæða í lífi þínu. Veldu hamingjuna!